felag rafeindavirkja

Vikuna 15.-19. maí tók nýútskrifaður rafeindavirki, Njáll Laugdal Árnason, þátt í landsmóti Iðn- og verkgreina, TAITAJA2017, sem haldið var í Helsinki í Finnlandi. 

Keppt var í tveimur flokkum í rafeindavirkjun, annarsvegar var keppni milli rafeindavirkjanema frá ýmsum skólum í Finnlandi og hins vegar var alþjóðleg undirbúningskeppni fyrir Worldskills 2017. Njáll lenti í fjórða sæti en þetta er í fyrsta skipti sem rafeindavirkjar frá Íslandi taka þátt í móti sem þessu.

m1
Njáll einbeittur í verkefni dagsins.

m2

Keppendur saman komnir í lokin. Njáll Laugdal Árnason er lengst til hægri.

Nánar um keppnina (smella hér)

 

felag rafeindavirkja

Í dag stóð Starfsgreinaráð rafiðnaðarins fyrir Menntaráðstefnu rafiðnaðarins. Þar var fjallað um stöðu rafiðngreina innan skólanna, hvaða sýn kennarar hafa á námskrá og kennslu samkvæmt henni. Einnig var leitað til atvinnulífsins og SART menn bentu á hvaða kröfur atvinnurekendur gera til nýsveina. Formenn sveinafélaga Rafiðnaðarsambands Íslands sögðu frá því hvaða framtíðarsýn þeir hafa í sínu fagi, hvað er vel gert, hvað má gera betur og hvaða áherslur þurfa að vera í kennslu. Umræðan var mjög opinská og voru fundarmenn mjög sáttir eftir fundinn. Það er mikilvægt fyrir alla aðila að menn tali saman og komi sínum skoðunum á framfæri sem stuðlar að betra námi, hvort sem námskrár eru aðlagaðar að atvinnulífinu og kennsla löguð að námsskrá. Formaður FRV vill þakka þeim sem stóðu að ráðstefnunni fyrir vel heppnaða ráðstefnu.

felag rafeindavirkja

Þann 26. Mars fengu 11 nýsveinar sveinsbréfin afhent við mjög hátíðlega athöfn. Athöfnin fór fram í húsnæði Rafiðnaðarskólans að Stórhöfða 27 og var mjög ánægjulegt að afhenda sveinsbréfin í því húsnæði þar sem nýsveinar eiga eftir að koma æði oft þar sem þeir munu væntanlega flestir sækja sér endurmenntun hjá Rafiðnaðarskólanum þegar þeir hafa starfað á atvinnumarkaði í einhverntíma. Óskum við þeim innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga!

felag rafeindavirkja

Þann 5. febrúar afhenti Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur nýsveinum í ýmsum iðngreinum verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi. Að venju eru nýsveinar í rafiðnaði fjölmennir í þessum hópi, þetta árið voru tveir nýsveinar í rafeindavirkjun sem fengu silfurverðlaun en það voru þeir Bjarni Kjartansson og Ólafur Egill Ólafsson, óskar Félag Rafeindavirkja þeim til hamingju með frábæran árangur. Gullverðlaun eru veitt þeim iðnaðarmanni sem hefur skarað fram úr í starfi á undanförnum árum eða áratugum eins og gullverðlaunahafi þessa árs hefur gert en það var hún Dóra Guðbjört Jónsdóttir, gullsmiður. 

 

Þetta framtak Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur hefur heppnast gríðarlega vel og er þetta í fimmta skipti sem slík verðlaunaafhending er haldin og sannarlega eftirsóknarvert að fá verðlaun fyrir góðan árangur. Það kom skýrt fram í máli ræðumanna að mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki á atvinnumarkaðnum og því er það mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að auðvelda ungum sem öldnum að mennta sig og þá ekki síst í iðngreinum. 

felag rafeindavirkja

Haldinn var opinn fundur á vegum atvinnumála- og umhverfisnefnda hjá ASÍ nú í vikunni þar sem meðal annars var farið yfir stöðu atvinnumála um allt land. Það er eins og allir vita erfitt ástand á atvinnumarkaði sem leiðir til aukins atvinnuleysis og lækkandi tekna fólks. En þegar rætt er um fjölgun starfa hér á landi þá er ævinlega horft í skammtíma lausnir sem eru mannaflsfrekar eins og stóriðja. Þessar framkvæmdir eru og hafa verið okkur gríðarlega mikilvægar og þá sérstaklega á erfiðum tímum. En eins og hefur oft komið fram hjá okkur þá þurfum við að finna fleiri leiðir til þess að efla atvinnumarkaðinn hjá okkur. Það má gera með því að styðja við núverandi fyrirtæki sem hér starfa, jafnt stóriðju, hátækni- og sprotafyrirtæki og önnur smærri fyrirtæki og stofnanir. Æði oft er það gefið í skyn að þessi fyrirtæki geti ekki öll starfað hlið við hlið sem er alls ekki rétt. Það er fjöldinn allur af nýjum fyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um nýjar hátæknilausnir sem og afþreyingu fyrir fólk. En það sem þessi fyrirtæki eiga sameiginlegt er oft að það tekur að jafnaði 5 ár að byggja þessi fyrirtæki upp og ekki alltaf auðvelt. Einhver fyrirtækjanna eru nú á þeim tímamótum að þau eru komin á beinu brautina og eru að stækka við sig, fjölga starfsmönnum og sækja á enn stærri markaði.

 

Forsvarsmenn þessara fyrirtækja segja allir að það sem hamli því að þeir geti stækkað og þróast er einfaldlega það að erfiðlega gangi að fá iðnmenntað starfsfólk! Rafeindavirkjar eru mjög eftirsóttir í þessi fyrirtæki þar sem menntun þeirra er gríðarlega öflug til að hanna og smíða ný tæki. Ef við ætlum að byggja upp slík fyrirtæki þá er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að setja okkur stefnu í menntamálum, við þurfum að leggja meiri áherslu á verknám. Við þurfum að ná þeim markmiðum sem meðal annars ASÍ vinnur að þ.e.a.s. að árið 2020 verði minna en 10% þeirra sem eru á atvinnumarkaðnum án framhaldsmenntunar. Þetta markmið er einnig að finna hjá ESB en í dag eru um 35% án framhaldsmenntunar. Hvað þetta atriði varðar þá er Ísland aftarlega á merinni ef það er borið saman við löndin í kringum okkur.

 

Einnig hefur það komið fram hjá fjölmörgum einstaklingum í atvinnulífinu að þeir einstaklingar sem byrja á því að mennta sig í verknámi og starfa á markaðnum í einhvern tíma og fer síðan og klárar framhaldsnám því til viðbótar. Þetta fólk hefur þar af leiðandi reynslu af því að vinna með höndunum og á oft á tíðum auðveldara með að setja sig inn í flóknari verk.

 

En á sama tíma og við vitum það að við þurfum að efla menntun í landinu og þá sérstaklega í verknámi þá er stöðugt verið að draga úr aðgengi fólks til þess að sækja sér þá menntun sem hentar hverjum og einum. Á síðustu haustönn þurfti meðal annars að vísa nemendum frá sem hugðust klára rafeindavirkjun sökum niðurskurðar. Förum að horfa fram á veginn og byggja upp í stað þess að skera niður!

felag rafeindavirkja

Nú fer að hefjast fundarferð sem farin er á vegum RSÍ.  Reynt er eins og venjulega að ná til sem flestra félagsmanna sem víðast um landið, fundartími og staður verður auglýstur þegar nær dregur hverjum stað en skipulag má sjá hér að neðan. Á fundunum verður farið yfir stöðu mála en einnig er mikilvægt að fá ábendingar og spurningar frá félagsmönnum. Við hvetjum alla félagsmenn til þess að mæta á þann fund sem hentar þeim best. 



Akureyri Hótel KEA þriðjudaginn 18. janúar kl. 12:00
Reykjavík Grand Hótel miðvikudaginn 19. janúar    kl. 12:00
Egilsstaðir Hótel Hérað miðvikudaginn 19. janúar kl. 19:30
Selfoss Hótel Selfoss föstudaginn 21. janúar kl. 12:00
Reykjanesbær    Flughótel mánudaginn 24. janúar kl. 12:00
Akranes Gamla Kaupfélagið    þriðjudaginn 25. janúar kl. 17:00
Sauðárkrókur Kaffi Krókur fimmtudaginn 27. janúar kl. 12:00

felag rafeindavirkja

Stjórn og trúnaðarráð Félags Rafeindavirkja óskar félagsmönnum sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs. 

felag rafeindavirkja

Vert er að benda félagsmönnum á að breytingar voru gerðar á lögum nr. 70/2010 sem tóku gildi í júní síðastliðnum.Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við bendum öllum sem geta átt rétt á endurgeiðslu til að kynna sér málið til hlítar, nánari upplýsingar er að finna hér, Athugið að umsóknarfrestur er til 1. september og því skammur tími til stefnu!

felag rafeindavirkja

Boðað var til formannafundar ASÍ og var hann haldinn í dag. Greinilega kom fram að þolinmæði launþega er á þrotum, lítið hefur gerst í atvinnumálum að undanförnu og Alþingi virðist frekar vera að stöðva verkefni í stað þess að greiða götur þeirra.

Það er grátlegt að fylgjast með vænlegum mannaflsfrekum verkefnum stoppa vegna smávægilegra atriða sem oft á tíðum virðist eingöngu vera vegna persónulegs álits einstaklings en ekki með sjónarmið þjóðarinnar í fyrirrúmi.En á fundinum kom einnig fram mikil andstaða við aðgerðum SA. Að samtök atvinnulífsins láti stjórnast af örsmáum hópi félagsmanna sem hefur slæmar afleiðingar fyrir hinn stóra hóp atvinnurekenda sem þurfa að taka afleiðingum uppsagnar stöðugleikasáttmálans með hækkun launa.

Við fögnum því hinsvegar að þessi hópur virðist þá geta greitt hærri laun fyrst SA er reiðubúið að segja sig frá sáttmálanum fyrir ekki stærra tilefni því er ekkert eðlilegra en að sú hækkun komi til framkvæmda nú þegar!Það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi fari að koma hjólum atvinnulífsins af stað því atvinnuleysi eykst jafnt og þétt, horfur í efnahagsmálum velta alfarið á því hvernig til tekst. Það getur munað hundruðum milljarða á landsframleiðslu eftir því hvernig gengur að hefja framkvæmdir á næstu tveimur árum. Nú verða allir alþingismenn að snúa bökum saman og brjóta odd af oflæti sínu og byggja upp betra Ísland!