Fréttir

felag rafeindavirkja

Haldinn var opinn fundur á vegum atvinnumála- og umhverfisnefnda hjá ASÍ nú í vikunni þar sem meðal annars var farið yfir stöðu atvinnumála um allt land. Það er eins og allir vita erfitt ástand á atvinnumarkaði sem leiðir til aukins atvinnuleysis og lækkandi tekna fólks. En þegar rætt er um fjölgun starfa hér á landi þá er ævinlega horft í skammtíma lausnir sem eru mannaflsfrekar eins og stóriðja. Þessar framkvæmdir eru og hafa verið okkur gríðarlega mikilvægar og þá sérstaklega á erfiðum tímum. En eins og hefur oft komið fram hjá okkur þá þurfum við að finna fleiri leiðir til þess að efla atvinnumarkaðinn hjá okkur. Það má gera með því að styðja við núverandi fyrirtæki sem hér starfa, jafnt stóriðju, hátækni- og sprotafyrirtæki og önnur smærri fyrirtæki og stofnanir. Æði oft er það gefið í skyn að þessi fyrirtæki geti ekki öll starfað hlið við hlið sem er alls ekki rétt. Það er fjöldinn allur af nýjum fyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um nýjar hátæknilausnir sem og afþreyingu fyrir fólk. En það sem þessi fyrirtæki eiga sameiginlegt er oft að það tekur að jafnaði 5 ár að byggja þessi fyrirtæki upp og ekki alltaf auðvelt. Einhver fyrirtækjanna eru nú á þeim tímamótum að þau eru komin á beinu brautina og eru að stækka við sig, fjölga starfsmönnum og sækja á enn stærri markaði.

 

Forsvarsmenn þessara fyrirtækja segja allir að það sem hamli því að þeir geti stækkað og þróast er einfaldlega það að erfiðlega gangi að fá iðnmenntað starfsfólk! Rafeindavirkjar eru mjög eftirsóttir í þessi fyrirtæki þar sem menntun þeirra er gríðarlega öflug til að hanna og smíða ný tæki. Ef við ætlum að byggja upp slík fyrirtæki þá er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að setja okkur stefnu í menntamálum, við þurfum að leggja meiri áherslu á verknám. Við þurfum að ná þeim markmiðum sem meðal annars ASÍ vinnur að þ.e.a.s. að árið 2020 verði minna en 10% þeirra sem eru á atvinnumarkaðnum án framhaldsmenntunar. Þetta markmið er einnig að finna hjá ESB en í dag eru um 35% án framhaldsmenntunar. Hvað þetta atriði varðar þá er Ísland aftarlega á merinni ef það er borið saman við löndin í kringum okkur.

 

Einnig hefur það komið fram hjá fjölmörgum einstaklingum í atvinnulífinu að þeir einstaklingar sem byrja á því að mennta sig í verknámi og starfa á markaðnum í einhvern tíma og fer síðan og klárar framhaldsnám því til viðbótar. Þetta fólk hefur þar af leiðandi reynslu af því að vinna með höndunum og á oft á tíðum auðveldara með að setja sig inn í flóknari verk.

 

En á sama tíma og við vitum það að við þurfum að efla menntun í landinu og þá sérstaklega í verknámi þá er stöðugt verið að draga úr aðgengi fólks til þess að sækja sér þá menntun sem hentar hverjum og einum. Á síðustu haustönn þurfti meðal annars að vísa nemendum frá sem hugðust klára rafeindavirkjun sökum niðurskurðar. Förum að horfa fram á veginn og byggja upp í stað þess að skera niður!