felag rafeindavirkja

Vert er að benda félagsmönnum á að breytingar voru gerðar á lögum nr. 70/2010 sem tóku gildi í júní síðastliðnum.Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við bendum öllum sem geta átt rétt á endurgeiðslu til að kynna sér málið til hlítar, nánari upplýsingar er að finna hér, Athugið að umsóknarfrestur er til 1. september og því skammur tími til stefnu!

felag rafeindavirkja

Boðað var til formannafundar ASÍ og var hann haldinn í dag. Greinilega kom fram að þolinmæði launþega er á þrotum, lítið hefur gerst í atvinnumálum að undanförnu og Alþingi virðist frekar vera að stöðva verkefni í stað þess að greiða götur þeirra.

Það er grátlegt að fylgjast með vænlegum mannaflsfrekum verkefnum stoppa vegna smávægilegra atriða sem oft á tíðum virðist eingöngu vera vegna persónulegs álits einstaklings en ekki með sjónarmið þjóðarinnar í fyrirrúmi.En á fundinum kom einnig fram mikil andstaða við aðgerðum SA. Að samtök atvinnulífsins láti stjórnast af örsmáum hópi félagsmanna sem hefur slæmar afleiðingar fyrir hinn stóra hóp atvinnurekenda sem þurfa að taka afleiðingum uppsagnar stöðugleikasáttmálans með hækkun launa.

Við fögnum því hinsvegar að þessi hópur virðist þá geta greitt hærri laun fyrst SA er reiðubúið að segja sig frá sáttmálanum fyrir ekki stærra tilefni því er ekkert eðlilegra en að sú hækkun komi til framkvæmda nú þegar!Það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi fari að koma hjólum atvinnulífsins af stað því atvinnuleysi eykst jafnt og þétt, horfur í efnahagsmálum velta alfarið á því hvernig til tekst. Það getur munað hundruðum milljarða á landsframleiðslu eftir því hvernig gengur að hefja framkvæmdir á næstu tveimur árum. Nú verða allir alþingismenn að snúa bökum saman og brjóta odd af oflæti sínu og byggja upp betra Ísland!

felag rafeindavirkja

Miðstjórn RSÍ fundaði síðastliðinn föstudag og sendi frá sér eftirfarandi ályktun, ályktun Ályktun miðstjórnar RSÍ um atvinnumál 26. mars 2010 Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands átelur harðlega það ábyrgðarleysi sem stjórnmálamenn hafa sýnt undanfarið ár með þeim vinnubrögðum sem þeir hafa viðhaft. Alvarlegt ástand efnahags- og atvinnumála fer enn versnandi. Atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og er að nálgast 20 þús. manns, þrátt fyrir að margir hafi horfið af vinnumarkaði og farið erlendis eða í nám. Allt bendir til að atvinnuleysi muni enn aukast, ef ekki verði gripið til öflugra varna. Leysa verður Icesave-deiluna og aðra óvissuþætti. Nýjar hagspár gera ráð fyrir of litlum hagvexti til þess að nógu mörg störf skapist til að það dragi úr atvinnuleysinu. Miðstjórn RSÍ krefst þess að alþingismenn sýni meiri ábyrgð í störfum sínum og taki höndum saman um endurreisn efnahagskerfisins og setji hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Alþingi verður að vinna traust þjóðarinnar á ný og taka upp ábyrg vinnubrögð. Nóg er komið af hráskinnaleik stjórnmálamanna. Miðstjórn RSÍ krefst þess að ríkisstjórnarflokkar og stjórnarandstaða snúi bökum saman og hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi atvinnulífinu möguleika til þess að hún verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem til var ætlast.

Sveitafélög stöðva hvert verkefnið á fætur öðru með seinagangi og láta deiliskipulag standa í vegi framkvæmda, sem þegar eru á borðinu eins og mörg dæmi eru um. Þar má t.d. nefna ráðaleysi borgarstjórnar Reykjavíkur og stendur með því í vegi fyrir miklum byggingarframkvæmdum, eins og t.d. uppbyggingu stúdentagarða, sem eru fullfjármagnaðir og hafa verið tilbúnir til framkvæmda um nokkurt skeið. Launþegar og verkalýðshreyfingin hefur þegar axlað sína ábyrgð á leið Íslands út úr vandanum. Það er löngu kominn tími til að hætta að brjóta niður og stöðva vænleg verkefni, brýnna er nú þegar að ryðja braut þeirra verkefna. Það þarf að endurheimta fyrra atvinnustig og lífskjör sem fyrst. Það er hægt með því að setja atvinnusköpun í forgang, sérstaklega með fjárfestingum og vexti í útflutningsgreinum. Einungis ein leið er fær til þess að ná aftur sambærilegum kaupmætti og verja velferðarkerfið, það er að auka verðmætasköpun í landinu. Fram hafa komið hugmyndir um fjárfestingaverkefni upp á rúmlega 300 milljarða króna á ári næstu 3 árum. Orkutengd verkefni áttu að skila meira en 13 þúsund ársverkum og verkefni í einkafjármögnun um 3 þúsund ársverkum. Sprotafyrirtæki hafa verið að ráða fólk og benda réttilega á að með ákveðnari stuðningi sveitarstjórna og stjórnvalda væri hægt að ná mun lengra á þeim vettvangi. Það er ljóst að það mundi hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda af stað.

Miðstjórn RSÍ telur að lengra verði ekki gengið á þessari óheillabraut. Stjórnmálamenn eru með athöfnum sínum að stefna hagsmunum þúsunda heimila í óþarfa hættu og niðursveifla hagkerfisins verður mun dýpri og muni vara töluvert lengur en ástæður eru til.

Ályktun miðstjórnar RSÍ um Stöðugleikasáttmála 26. mars 2010 SA hefur sagt sig frá Stöðugleikasáttmála og gengur þar erinda útgerðarmanna. Með þessu er verið að skapa upplausn í stjórnmálum og er hún þó ærin fyrir. Þetta virðist gert til þess eins að tryggja eignarhald fárra á kvótanum. Einstaklinga sem hafa skuldsett þessa þjóðareign upp í topp og krefjast enn meiri forréttinda. Miðstjórn RSÍ fordæmir þessa ákvörðun og telur hana sýna mikið ábyrgðarleysi af hálfu SA, þar sem veri að gæta hagsmuna fárra á kostnað fjöldans.

Stöðugleikasáttmálinn var forsenda þess að launamenn sættu sig við frestun umsaminna launahækkana. SA hefur með ákvörðun sinni rofið þá sátt og rafiðnaðarmenn krefjast þess að þeirri launahækkun sem frestað var um síðustu áramót komi nú þegar til framkvæmda.

Launamenn hafa staðið við sitt og sýnt fulla ábyrgð og hafa þegar axlað sínar byrðar. Miðstjórn RSÍ felur fulltrúum rafiðnaðarmanna að koma þessum skilaboðum á framfæri við fyrirhugaðan formannafund aðildarfélaga ASÍ 29. marz næstk.

felag rafeindavirkja

Laugardaginn 6 febrúar síðastliðinn var verðlaunaafhending Iðnaðarmannafélagsing í Reykjavík og að vanda skipuðu rafiðnaðarmenn sér í fremstu röð.

Níu af nítján verðlaunahöfum voru úr rafiðnaðargeiranum og af þeim níu voru fjórir rafeindavirkjar. Þeir heita Henry Hálfdánarson, Karl Friðrik Karlsson, rafeindavirki, Guðmundur Geir Guðmundsson og Þórarinn Gunnarsson. Félag Rafeindavirkja óskar þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.

felag rafeindavirkja

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ var haldin dagana 12 og 13 nóvember á Selfossi, líkt og síðustu ár. Á ráðstefnunni er leitast við að upplýsa trúnaðarmenn um stöðu mála hjá RSÍ, stöðu kjarasamninga og önnur mál sem í gangi eru hverju sinni.

Katrín Júlíusdóttir Iðnaðarráðherra ávarpaði fundinn og sagði hvaða verkefni eru í gangi hjá ráðuneytinu. Áhugavert var að heyra að mikill vöxtur er í hinum ýmsu fyrirtækjum þar á meðal CCP tölvuleikjafyrirtækinu sem þekktast er fyrir tölvuleikinn Eve-online. Þar er verið að fjölga störfum um 180. Netþjónabú eru mikið til umræðu og munu þau vissulega skapa fjölmörg störf fyrir rafiðnaðargeirann, fjölmörg þjónustu störf eru í kringum þau.

Því næst hélt Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ ávarp og kom hann víða við. Þessa dagana liggur það væntanlega þungt á fólki hverjar skattahækkanir verða og hvernig þær munu koma við launafólk.

Starfsemi starfsendurhæfingarsjóðs var kynnt, en Sigrún Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem ráðgjafi fyrir RSÍ. Sigrún veitir einstaklingum aðstoð við að viðhalda og efla virkni til vinnu. Náið samstarf er við hvern einstakling með það að markmiði að aðstoða einstaklinginn við að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

RSÍ hefur einnig ráðið lögfræðinginn Halldór Oddsson. Sambandið hefur undanfarin ár greitt miklar fjárhæðir í lögfræðikostnað og mun sá kostnaður væntanlega lækka. Allir félagsmenn FRV og annarra félaga innan RSÍ geta leitað til Halldórs á viðtalstímum (þriðjudögum kl 10:00 - 12:00 og fimmtudögum kl 16:00 - 18:00 eða samkv. samkomulagi) eða í tölvupósti: halldor (hja) rafis.is Við hvetjum félagsmenn til þess að nýta sér þessa þjónustu!

Fyrirlesarar seinni daginn voru þeir Páll Skúlason, Háskóla Íslands og Stefán Einar Stefánsson, Háskólanum í Reykjavík. Páll fjallaði um það hvað gerðist í þjóðfélaginu og hvert við eigum að stefna, Stefán fjallaði um siðrof í samfélaginu.

Að lokum var hópavinna þar sem fjórir hópar fengu það verkefni að koma með framtíðarsýn RSÍ. Hópavinnan gekk mjög vel og var mikil ánægja með hana, það er mikilvægt fyrir sambandið að fá nýjar hugmyndir frá trúnaðarmönnum því trúnaðarmenn hafa tenginguna til félagsmanna. Þessar hugmyndir verða síðan nýttar til að styrkja starf sambandsins enn frekar.

felag rafeindavirkja

Félagsfundur verður haldinn mánudaginn 16. nóvember 2009 kl. 17:30 að Stórhöfða 31, gengið inn að neðanverðu (nær Grafarvogi).

Dagskrá:
Kynning á mögulegri útfærslu á sameiningu Félags
Rafeindavirkja og Félags Símsmiða

felag rafeindavirkja

1. nóvember rann út sá frestur sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu til þess að segja kjarasamningum upp. Mikið var deilt á ríkisstjórnina af hálfu atvinnurekenda þar sem nokkur stór atriði úr stöðugleikasáttmálanum voru ekki uppfyllt. En einnig vorum við ósátt við fyrirhugaðar skattahækkanir og fyrirkomulag þeirra.

Samkvæmt sáttmálanum ættu skattahækkanir ekki að verða meiri en sem nemur rúmum 40 milljörðum en nefndar hafa verið tölur sem eru rúmlega tvöföld sú upphæð.

Helstu ávinningar framlengingar samningsins eru þeir að lágmarkslaun hækka um 8.750 kr og launaþróunartrygging veitir 3,5% hækkun launa, hafi laun ekki hækkað á tímabilinu 1. janúar - 1. nóvember 2009.

felag rafeindavirkja

Auka aðalfundur verður haldinn mánudaginn 18. maí kl. 17:00 að Stórhöfða 31, gengið inn Grafarvogsmegin.  Hvetjum alla félagsmenn til þess að mæta.

felag rafeindavirkja

Stafir lífeyrissjóður boðar til ársfundar á Grand hóteli Reykjavík á þriðjudaginn kemur, 19. maí, kl. 17:00. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf og tillögur að breytingum á samþykktum sem hægt er að kynna sér á stafir.is.

Stafir boða jafnframt til sjóðfélagafundar kvöldið fyrir ársfund, mánudaginn 18. maí, kl. 20:00 að Stórhöfða 31. Stjórnendur Stafa ætla þar að „rýna í stöðuna“ með fundargestum og svara fyrirspurnum um afleiðingar hrunsins og um niðurstöður ársreiknings 2008.

Sjóðfélagar eru hvattir mæta til að afla upplýsinga eða leita svara við spurningum.

Allir sjóðfélagar eru hjartanlega velkomnir á báða fundina.

felag rafeindavirkja

Laugardaginn 28. mars fengu nýsveinar sveinsbréfin sín afhend. Athöfnin var mjög virðuleg að vanda en 16 rafeindavirkjar luku sveinsprófi í febrúar. Félag Rafeindavirkja óskar nýsveinum innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

Að vanda voru veitt verðlaun fyrir bestan samanlagðan árangur í rafeindavirkjun, bestan árangur í verklegum hluta sveinsprófs og bestan árangur á skriflegu prófi í rafeindavirkjun og var það Henry Arnar Hálfdánsson sem hlaut öll verðlaunin og óskar Félag Rafeindavirkja honum innilega til hamingju með árangurinn.