Fréttir

felag rafeindavirkja

Þann 5. febrúar afhenti Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur nýsveinum í ýmsum iðngreinum verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi. Að venju eru nýsveinar í rafiðnaði fjölmennir í þessum hópi, þetta árið voru tveir nýsveinar í rafeindavirkjun sem fengu silfurverðlaun en það voru þeir Bjarni Kjartansson og Ólafur Egill Ólafsson, óskar Félag Rafeindavirkja þeim til hamingju með frábæran árangur. Gullverðlaun eru veitt þeim iðnaðarmanni sem hefur skarað fram úr í starfi á undanförnum árum eða áratugum eins og gullverðlaunahafi þessa árs hefur gert en það var hún Dóra Guðbjört Jónsdóttir, gullsmiður. 

 

Þetta framtak Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur hefur heppnast gríðarlega vel og er þetta í fimmta skipti sem slík verðlaunaafhending er haldin og sannarlega eftirsóknarvert að fá verðlaun fyrir góðan árangur. Það kom skýrt fram í máli ræðumanna að mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki á atvinnumarkaðnum og því er það mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að auðvelda ungum sem öldnum að mennta sig og þá ekki síst í iðngreinum.